Brjóstastækkanir í fegrunarskyni – Upplifun og viðhorf kvenna með falsaða brjóstapúða

Freydís Jóna Freysteinsdóttir, Thelma Björk Guðbjörnsdóttir

Útdráttur


Markmið greinarinnar er að varpa ljósi á reynslu og viðhorf kvenna sem gengist hafa undir brjóstastækkunaraðgerð og eiga þá sameiginlegu reynslu að hafa fengið falsaða brjóstapúða í brjóst sín. Greinin byggist á niðurstöðum rannsóknar Thelmu Bjarkar Guðbjörnsdóttur (2012) til meistara-prófs í félagsráðgjöf. Tekin voru viðtöl við tíu konur; þær yngstu voru á miðjum þrítugsaldri og þær elstu á fimmtugsaldri. Niðurstöður gefa vísbendingar um að konur gangist undir brjóstastækkunar-aðgerð af ólíkum ástæðum og upplifun þeirra og viðhorf kunni að vera ólík eftir því hvað leiði til þess að þær gangist undir aðgerð. Þráin eftir kvenleika virðist hafa verið helsti hvati þess að konurnar gengust undir brjóstastækkunaraðgerð, en mikil  vanlíðan og óánægja með brjóstin fyrir aðgerð einkenndi frásagnir viðmælenda í rannsókninni. Flestar kvennanna töldu sjálfsálitið hafa aukist eftir aðgerðina  og voru ánægðar með útkomuna fyrst um sinn. Svo virðist vera að það að vera með falsaða brjóstapúða taki á í tilfinningalífi kvenna og leiði til óvissu. Einnig sé afar erfitt að standa frammi fyrir því að þurfa að láta fjarlægja brjóstapúða sem veitt hefur einstaklingnum félagslegt öryggi á liðnum árum. 


Efnisorð


félagsráðgjöf; líkamsímynd; fegrunaraðgerð; brjóstastækkunaraðgerð; brjóstapúðar

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir