Stefnumótun í félagsþjónustu byggð á sannreyndri þekkingu

Erla Björg Sigurðardóttir

Útdráttur


Greinin fjallar um opinbera stefnumótun og starfsemi sem byggð er á sannreyndri þekkingu. Á liðnum árum hafa stjórnvöld víða á Vesturlöndum lagt áherslu á að beita bestu aðferðum sem völ er á hverju sinni og á sem hagkvæmastan hátt til þess að jákvæð áhrif opinberrar þjónustu séu sem mest fyrir þá sem þiggja hana. Á sviði félagsráðgjafar hafa menn nýtt sér niðurstöður rannsókna í takmörkuðum mæli og mjög skortir samræmi milli þess sem rannsóknir hafa leitt í ljós og þess sem beitt er í raun í stefnu, stjórnun og starfsemi á vettvangi. Undanfarin ár hefur ný leið til nálgunar, sannreynd starfsemi (evidence based practice) sett svip sinn á störf félagsráðgjafa en það getur fært þjónustu á vettvangi og rannsóknir nær hvort öðru. Margir félagsráðgjafar efast þó um að sannreynd starfsemi sé rétta leiðin til að styrkja þekkingargrundvöll í greininni en áríðandi sé að hann nærist á ólíkum uppsprettum samhliða rannsóknum. Þegar sannreynd starfsemi er tekin upp í félagsþjónustu er nauðsynlegt að breyta verklagi varðandi framkvæmd þjónustu, skipulag og stjórnun til samræmis við það sem ætlunin er að innleiða. Rannsóknir sýna að ríkjandi siðir og tregða í skipulagi og starfi stofnana eru algengar hindranir þegar ætlunin er að innleiða sannreynda starfsemi í félagsþjónustu og annarri opinberri þjónustu. Á síðastliðnum áratug hafa rannsóknir fengið aukið vægi við opinbera stefnumótun, þróun aðferða og við eflingu félagslegra úrræða á Íslandi.

 


Efnisorð


Sannreynd stefnumótun, sannreynd starfsemi, sannreynd þekking; félagsþjónusta; þrepakerfi rannsókna

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir