Mæður sem látast af völdum ofbeldis - Bein og óbein fórnarlömb kvenmorða

Freydís Jóna Freysteinsdóttir

Útdráttur


Markmiðið með þessari rannsókn var að rannsaka tiltekinn hluta kvenmorða (e. femicide) sem hafa verið framin á Íslandi. Í þessum málum höfðu mæður barna verið beittar ofbeldi sem leiddi til dauða þeirra. Verknaðinn framdi aðili sem þær höfðu verið í nánu sambandi við. Tilgangurinn var að öðlast þekkingu á því hvað einkennir slík mál með það fyrir augum að reyna að fyrirbyggja þau í framtíðinni. Könnuð voru slík mál á 35 ára tímabili hér á landi. Aðferðin var bæði megindleg og eigindleg og fól í sér innihaldsgreiningu dóma og fréttamiðla. Niðurstöður sýndu að átta mæður sem áttu samtals 14 börn tvítug eða yngri voru myrtar hér á landi á þessu tímabili. Verknaðaraðferðin virðist hafa verið tengd félagslegu umhverfi morðanna. Í tæplega helmingi tilfella voru barn eða börn viðstödd þegar móðir þeirra var myrt og urðu því vitni að verknaðinum með einhverjum hætti. Þegar um föður barnanna var að ræða fór hann í fangelsi eða var vistaður á geðdeild í kjölfar verknaðarins en í einu tilfelli svipti faðirinn sig lífi í kjölfar verknaðarins. Því má segja að flest börnin hafi misst báða foreldra sína þegar þetta gerðist. Þar sem um gríðarleg áföll er að ræða fyrir börnin og aðra aðstandendur er mikilvægt að fagfólk í félagslega geiranum og heilbrigðisgeiranum skimi fyrir ofbeldi. Jafnframt er mikilvægt að það þekki einkenni og aðdraganda slíkra atburða svo fremur sé hægt að koma í veg fyrir þá.

Efnisorð


mæður; kvenmorð; börn; ofbeldi; vitni að ofbeldi

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir