„Ég hafði engan til að tala við áður en ég byrjaði í skólanum“ - Reynsla fylgdarlausra barna af skólagöngu, afþreyingu og félagslegri þátttöku

Guðbjörg Ottósdóttir, Eva Björg Bragadóttir

Útdráttur


Fylgdarlausum börnum sem flýja heimaland sitt og sækja um alþjóðlega vernd hefur fjölgað hratt í Evrópu. Fylgdarlaus börn eru í viðkvæmri stöðu og hafa sérstakar þarfir fyrir stuðning. Greinin fjallar um hluta af niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar á reynslu fylgdarlausra drengja af móttöku og þjónustu á meðan á málsmeðferð stóð. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á aðstæður og upplifun fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Tekin voru sjö hálfstöðluð viðtöl við sjö drengi sem fengið höfðu alþjóðlega vernd. Í greininni er fjallað um niðurstöður sem tengjast reynslu viðmælenda af menntun og skólagöngu, afþreyingu og félagslegri þátttöku. Niðurstöðurnar sýna að drengjunum þóttu þeir ekki fá næg tækifæri til menntunar og skólagöngu, afþreyingar og samveru með jafnöldrum, og hafði þetta neikvæð áhrif á líðan þeirra og aðlögun. Þeir upplifðu menntun jafnframt sem vettvang til þess að skapa framtíðarsýn. Niðurstöðurnar varpa annars vegar ljósi á gildi menntunar og skólagöngu fyrir fylgdarlaus börn og hins vegar mikilvægi félagslegs vettvangs fyrir þau. Mikilvægt er að hafa heildarsýn að leiðarljósi í þjónustu og samstarfi stofnana til þess að mæta þörfum fylgdarlausra barna.

Efnisorð


fylgdarlaus börn; menntun; félagsleg tengsl; þjónusta

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir