Upplýsingar fyrir höfunda

Almennt um skil handrita

Tímarit Félagsráðgjafa kemur að jafnaði út einu sinni á ári en hægt er að senda inn greinar allt árið. Tekið skal fram hvort greinarhöfundur hugsar sér handritið til almennrar birtingar eða óskar að fá það ritrýnt. Efni sem óskast ritrýnt skal vera nýtt og ekki hafa verið birt sem slíkt annars staðar. Áður en grein er send skal höfundur hafa kynnt sér rækilega leiðbeiningar hér að neðan um framsetningu efnis og fylgja þeim. Greinum sem ekki standast kröfur um framsetningu og efnistök hafnar ritstjórn.

Ritstjórn tekur ákvörðun um hvort handrit er sent í ritrýni og jafnframt hvort grein fæst birt í tímaritinu að lokinni ritrýni. Við ákvörðun um birtingu greina er tekið mið af því að efnið tengist á einhvern hátt félagsráðgjöf (rannsóknum, fagþróun, hugmyndafræði, siðfræði, þjónustuþróun, stefnumótun o.s.frv.). Til þess að uppfylla fræðilegar kröfur er höfundum bent á að (i) uppbygging greinar skal fylgja hefðbundinni kaflaskiptingu, (ii) texti skal vera gagnorður, stíll knappur og (iii) byggt skal á nýjustu þekkingu (heimildum).


Ef ritstjórn metur greinina svo að hún eigi erindi í tímaritið og uppfylli kröfur um efni og framsetningu er hún send til a.m.k. tveggja fræðimanna til ritrýningar (sjá leiðbeiningar til ritrýna í C-lið). Að ritrýni lokinni er greinin send höfundi ásamt athugasemdum ritrýna og skýrslu ritstjórnar. Höfundur endurskoðar og lagfærir greinina í samræmi við ábendingar ritrýna og ritstjórnar. Höfundur sendir greinina síðan aftur til tímaritsins með greinargerð um þær breytingar sem hann hefur gert á greininni. Handritið getur þá verið samþykkt af ritstjórn eða sent aftur í ritrýni og ákvörðun um birtingu tekin í kjölfar hennar.

Innsend grein með ósk um birtingu felur í sér leyfi til birtingar í rafrænni útgáfu. Höfundur ber ábyrgð á próförk greinar en tímaritið áskilur sér þó rétt til að breyta orðalagi eða stafsetningu við lokafrágang ef svo ber undir og nauðsyn krefur.

 Framsetning efnis 

Vandað skal til röklegrar framsetningar texta, málfars og frágangs. Eingöngu er tekið við handritum sem eru frágengin hvað varðar stafsetningu, stafavillur/brengl og meðferð íslensks máls ásamt skýrri kaflaskiptingu. Miðað er við APA-kerfið við gerð heimildaskrár, tilvísanir í texta, frágang á myndum og töflum, kaflafyrirsagnir og lengd beinna tilvitnana (sjá nánar í Publication Manual of the American Psychological Association, nýjustu útgáfu og á Leiðbeiningavef ritvers Menntavísindasviðs Háskóla Íslands (https://skrif.hi.is/ritver). Sé vitnað í erlendar málsgreinar skulu þær að jafnaði þýddar á íslensku. Sé vísað til erlendra orða skal nota íslenskt orð í lengstu lög, en vísa má til erlenda orðsins í sviga, t.d. líkan (e. model), með e. fyrir ensku, d. fyrir dönsku o.s.frv.

 

Mikilvæg atriði varðandi skil handrita

 • Lengd handrita skal að hámarki vera 4000 orð eða 13 blaðsíður að meðtaldri heimildaskrá og ágripum.
 • Greininni skal fylgja 180 orða ágrip á íslensku og ensku ásamt heiti greinar á ensku. Í ágripi skal gerð hnitmiðuð grein fyrir markmiði, efnistökum og innihaldi ásamt niðurstöðum í hnotskurn. Gefa skal upp 3-5 lykilorð á íslensku og ensku sem vísa til meginefnis og áherslu.
 • Nota skal 12 pt. letur (Times New Roman) og línubil 1,5. Inndregnar tilvitnanir skulu vera í 11 pt. letri og ekki í tilvitnunarmerkjum.
 • Einfalt orðabil skal vera á eftir punkti.
 • Forðast skal að nota skáletur, til dæmis er það ekki notað á erlendum orðum í sviga. Einnig skal forðast skammstafanir.
 • Nota skal íslenskar gæsalappir og fylgja öðrum reglum um greinarmerki, til dæmis að gera greinarmun á bandi (-) og striki (–); strik er til dæmis haft til að tengja saman aldursbil, blaðsíðutöl og ártöl.
 • Greinilegt skal vera hvað eru kaflafyrirsagnir og undirfyrirsagnir, ef við á.
 • Fyrirsagnir kafla skulu vera feitletraðir lágstafir 14 p. fyrir miðju.
 • Millifyrirsagnir í köflum skulu vera feitletraðir 12 p. og vera fremst í línu.
 • Tilvitnanir til eigin verka höfunda(r) skulu faldar. Í tilvísun komi fram „Höfundur, ártal eða Höfundur og samstarfsfólk, ártal.
 • Myndir og töflur skulu vera með sem einföldustu sniði og á sérsíðum aftast í handriti en merkt við í handritinu hvar þær skulu staðsettar (t.d. tafla 1 hér).
 • Greinar skulu vera vel yfirfarnar með tilliti til málfars og framsetningar.
 • Heimildaskrá skal sett upp samkvæmt APA-kerfinu. Allar upplýsingar (svo sem heiti greina og bóka þar sem einnig skal tilgreina undirtitla, blaðsíðutöl í tímaritum, nöfn höfunda og upphafsstafir þeirra) í henni þurfa að vera réttar. DOI-númer á að fylgja ef við á.
 • Athuga ber að þrátt fyrir að annað komi fram í APA-kerfinu er óskað eftir því að heftisnúmera allra tímarita sé getið.

Tímaritið tekur einnig við handritum að greinum á ensku og taka þá reglur um framsetningu og frágang mið af því að farið sé eftir bandarískum gerðum APA-kerfisins.