Fyrir ritrýna

Fyrir ritrýna

Ritrýni fyrir tímaritið er nafnlaus og ritrýnar eru beðnir um að taka tillit til neðangreindra atriða þegar þeir meta greinarnar og skrifa ritrýni, eftir því sem við á.

 • Er heiti greinarinnar lýsandi fyrir efni hennar?
 • Er útdráttur nákvæmur, lýsandi og í samræmi við innihald greinarinnar?
 • Er meginefni greinar, tilgangi og efnistökum lýst í inngangi?
 • Er greinin sett í fræðilegt samhengi?
 • Er gerð grein fyrir nýjustu rannsóknum á sviðinu?
 • Er gerð grein fyrir mikilvægi rannsóknarefnisins fyrir félagsráðgjöf?
 • Er tilgangur rannsóknarinnar og/eða rannsóknarspurningar ljós?
 • Er gerð grein fyrir rannsóknarsniði og rannsóknaraðferðum?
 • Er gerð skýr grein fyrir hvernig unnið var úr gögnum?
 • Eru niðurstöður settar fram á skýran hátt og studdar þeim gögnum sem safnað var?
 • Eru ályktanir sem dregnar eru af niðurstöðum svör við þeim spurningum sem lagt var af stað með og studdar þeim gögnum sem safnað var og þeim kenningum og heimildum sem fjallað hefur verið um?
 • Er niðurlag greinarinnar skýrt fram sett?
 • Bætir greinin við skilning og þekkingu á sviðinu?
 • Leggur greinin eitthvað af mörkum til rannsókna, starfsvettvangsins eða stefnumörkunar á sviði félagsráðgjafar?
 • Er málfar í greininni gott?
 • Er skipulag og framsetning greinarinnar skýrt?
 • Er heimildanotkun og tilvísanir til heimilda í samræmi við kröfur sem gerðar eru til fræðilegra greina (sbr. einnig APA-kerfið)?
 • Aðrar athugasemdir.

Ofantalin viðmið eru viðmið ritstjórnar og ritstjóra þegar ákvarðanir eru teknar um hvort greinar uppfylli skilyrði um framsetningu.

Flokkun greina
Þegar ritrýnir hefur lesið yfir greinina og gert athugasemdir er hann beðinn um að setja hana í einn af eftirfarandi flokkum og skila rökstuðningi til ritstjórnar fyrir þeirri niðurstöðu:

 • Greinina er hægt að birta óbreytta.
 • Greinina er hægt að birta eftir að gerðar hafa verið á henni tilgreindar breytingar.
 • Greininni er hafnað í núverandi gerð en nýja gerð má senda til ritrýningar.
 • Greininni er hafnað.

Ritstjórn tekur endanlega ákvörðun um í hvaða flokk grein er sett en fer að jafnaði eftir því sem ritrýnar mæla með ef þeim ber saman um flokkunina.

 

Varðandi gagnkvæma nafnleynd

Með ritrýni  er átt við að fjallað er um greinarnar með gagnkvæmri leynd þ.e. að ritrýnar fá ekki vitneskju um greinarhöfund og greinarhöfundar vita ekki hverjir ritrýna viðkomandi grein. Nafnleyndin er þannig tvöföld. Að jafnaði  fjalla tveir óháðir  ritrýnar  um hverja  grein, og vita þeir  ekki hvor um annan. Ritrýnar  eru bundnir trúnaði um umfjöllun sína. Setji ritrýnar athugasemdir inn í handritið eru þeir beðnir að útmá sín spor (m.a. eigin upphafsstafi í „comments“).